Ein af frægustu bókum Vilhjálms Stefánssonar er ´The Friendly Arctic´ (Heimskautslöndin unaðslegu) og sá hann fyrir að titill bókarinnar myndi fara fyrir brjóstið á samtímamönnum hans sem ekki deildu með honum svo jákvæðu viðhorfi til norðurslóðanna og íbúa þeirra.
Bókarkápan sýnir mann sem dregur nýdrepinn sel; ljósmynd af Vilhjálmi sjálfum. Þessi uppáhaldsljósmynd Vilhjálms á eflaust ekki upp á pallborðið hjá nútíma dýraverndunarsinnum en minnir okkur í staðinn á grundvallarþætti í aðlögun mannfólks á norðurslóðum; réttindi fólks og þörf til nýtingar á auðlindum náttúrunnar.
Arfleifð könnuðarins og mannfræðingsins Vilhjálms Stefánssonar tengist náið samskiptum manns og náttúru, sjálfbærri notkun náttúrulegra auðlinda ásamt afkomu og lífvænleika norðlægra samfélaga. Má vera að arfleifð hans sé ekki síst mikilvæg fyrir það að hann átti þátt í að breyta ímynd norðursins úr hrjóstugu, frosnu eyðilandi í ríkulegt og fjölbreytilegt umhverfi sem á skilið athygli alþjóðasamfélagsins. Við búum á tímum sífelldra breytinga og athyglin hefur sannarlega færst til norðurs. Þessi þróun hefur verið hröð og staðsett norðurslóðirnar í hringiðu málefna er varða umhverfismál og loftslagsbreytingar, alþjóðlegt samstarf, og nýtingu og stjórnun auðlinda.
Oft var talað um Vilhjálm sem “spámann norðursins” (Prophet of the North). Mikilvægur hluti af hans lífsspeki var að með því að læra af afkomendum þeirra kynslóða sem höfðu búið á norðurslóðum í þúsundir ára, gætum við skilið þá möguleika sem norðrið hefur upp á að bjóða. Til að slíkt geti átt sér stað er nauðsynlegt að hafa opinn huga, lausan við fordóma og vera tilbúin að læra af innfæddum.
Ekki voru allir sáttir við lífsspeki Vilhjálms og hann mætti ekki alltaf skilningi samtímamanna sinna, sem sýndu takmarkaða velþóknun á hlutverki hans sem málsvari inúíta og lífshátta þeirra. Það var svo að margir af könnuðum norðursins sýndu lítinn áhuga á fólkinu sem þar bjó og menningu þess. Vilhjálmur skar sig úr með sínar framsæknu hugmyndir, tilraunir til að forðast menningar- og þjóðrembu, og gagnrýnin viðhorf til innrásar evrópskrar menningar inn í menningarheim inúíta. Í fyrirlestrum sínum notaði hann oft samfélög inúíta til að veita amerískum áhorfendum sínum tækifæri til að velta fyrir sér eigin samfélagi. Af hverju voru þeir óánægðir, þrátt fyrir efnislega velmegun? Hann sagðist þekkja fólk sem átti nánast engar efnislegar eigur en voru samt hamingjusamasta fólk sem hann þekkti. Þannig tók Vilhjálmur þátt í menningarlegri gagnrýni löngu áður en slíkt komst í tísku.
Íslenska Nóbelskáldið Halldór Laxness þekkti vel til verka Vilhjálms Stefánssonar. Í ritgerð sem hann skrifaði árið 1927 sagði hann um Vilhjálm að hann hefði hugsanlega víðasta sjónarhorn allra þeirra er þá stunduðu ritstörf og yfirgripsmestu innsýn í margþætta fleti mannlegrar tilvistar.