Vilhjálmur Stefánsson fæddist 3. nóvember 1879 í Hulduárhvammi í  Árnesbyggð í Nýja Íslandi, Manitoba. Foreldrar hans, Ingibjörg Jóhannesdóttir og Jóhann Stefánsson, höfðu þremur árum áður flutt frá Eyjafirði til Kanada. Þegar Vilhjálmur var aðeins tveggja ára gamall flutti fjölskyldan til Bandaríkjanna þar sem hann var alinn upp á bóndabýli á sléttum Norður Dakóta og hlaut menntun sína í samfélagi þar sem íslenskir innflytjendur voru áberandi. Það var ekki fyrr en síðar, þegar hann hóf barnaskólagöngu sína, að hann lærði að tala ensku.

 

Vilhjálmur var framúrskarandi nemandi en nokkuð óstýrilátur og varð það til þess að honum var vísað úr Háskólanum í Norður Dakóta þar sem hann síðar varð heiðursdoktor. Hann nam við Háskólann í Iowa og lauk því næst framhaldsnámi í mannfræði við Harvard háskóla árið 1906. Á því sama ári ferðaðist hann til norðurslóða þar sem hann dvaldi meira og minna óslitið til ársins 1918. Þá flutti hann til Bandaríkjanna þar sem hann hélt fyrirlestra, skrifaði og stundaði kennslu.

 

Dvöl Vilhjálms á norðurslóðum hafði varanleg áhrif á hann, bæði persónulega og sem fræðimann. Sú mikla reynsla sem hann hlaut lagði grunninn að lífsspeki sem síðar aflaði honum virðingar en skapaði jafnframt deilur meðal samtímamanna hans.

 

Vilhjálmur var heimsfrægur maður og gæddur miklum persónutöfrum ásamt því að vera afkastamikill rithöfundur. Hann skrifaði meira en tuttugu bækur og fast að 400 greinar og ritgerðir um flest þau viðfangsefni er tengdust fræðimennsku á norðurslóðum. Hnattræn sjónarmið hans, hin ýmsu tengsl og fjölhæfni hans sem fræðimanns gerðu Vilhjálm að holdgervingi rannsókna á norðurslóðum; hann var reyndar stundum kallaður “herra norðurslóðir” (“Mr. Arctic”). Vinir kölluðu hann þó Stef. Meirihluta ævi sinnar bjó Vilhjálmur í Greenwich Village í New York þar sem hann hitti konu sína Evelyn. Hún vann við hlið hans í rannsóknarbókasafni þeirra sem var á sínum tíma stærsta bókasafn með efni tengdu norðurslóðum.  Árið 1953 fluttu þau, ásamt bókasafninu, til Dartmouth skóla (College) í Hanover, New Hampshire. Vilhjálmur var sem fyrr skarpur í hugsun og hélt störfum sínum áfram allt til æviloka. Hann lést 26. ágúst 1962, þá 82 ára gamall.

 

Um tíma bjó Vilhjálmur með Fannie Pannigabluk, inúíta konu sem var saumakona hans, ferðafélagi og etnógrafískur heimildarmaður. Þau voru gefin saman í hjónaband að inúíta sið en vegna aðstæðna lauk því sambandi. Sonur þeirra Alex Stefansson, fæddur 1910, eignaðist sex börn sem búa í Inuvik og Sacks Harbour í fylkinu ´Northwest Territories´ í Kanada.

 

Þann tíma sem Vilhjálmur dvaldi á norðurslóðum Kanada og Alaska hélt hann dagbækur þar sem lesa má nákvæmar lýsingar á samfélögum innfæddra, ferðum hans, veðri, dýralífi og staðbundnum kennileitum. Þetta efni var honum ótæmandi brunnur heimilda fyrir bækur hans, greinar og fyrirlestra en á þessum síðum er einnig að finna minna þekktar lýsingar á ferðalögum höfundar um eigin hugarheim, mitt á meðal staðreynda. Þessi skrif endurspegla flókinn einstakling sem hlaut í vöggugjöf víðtæka menningararfleifð og hafði yfir mikilli félagslegri reynslu að búa, var róttækur stjórnmálaheimspekingur  og maður sem barðist við einmanaleika og örvæntingu en átti jafnframt til kærleik, vináttu og gleði.