Á sýningunni Heimskautalöndin unaðslegu er að finna valdar ljósmyndir úr safni Vilhjálms Stefánssonar, handrit og útgefið efni, útdrátt úr dagbókum hans, kynningartexta og muni frá hinum ýmsum svæðum norðurslóða. Vilhjálmur (1879-1962) var landkönnuður, mannfræðingur og afkastamikill rithöfundur; gjarnan nefndur spámaður norðursins og arfleifð hans tengist náið málefnum nútímans er varða samband manns og umhverfis, sjálfbæra notkun náttúruauðlinda og lífvænleika samfélags og menningar á norðurslóðum. Arfleifð Vilhjálms er sérlega mikilvæg með tilliti til þess hvaða hlutverki hann gegndi við að færa ímynd norðurslóða frá  hrjóstrugu, frosnu eyðilandi; færa svæðið af jaðrinum og inn í kastljós alþjóðlegs samfélags. Skilaboð Vilhjálms voru þau að með því að halda opnum huga og læra af því fólki hvers forfeður lifðu á norðurslóðum í þúsundir ára, með því að laga sig að umhverfi sínu og byggja sér þekkingarbrunn sem sótt hefur verið í kynslóð eftir kynslóð, sjáum við að heimskautalöndin eru í reynd unaðsleg.

 

Skilaboð Vilhjálms voru umdeild meðal samtímamanna hans sem margir hverjir höfðu litla samúð með hlutverki hans sem málsvari Inúíta og lífshátta þeirra. Margir könnuðir norðursins voru í reynd fremur áhugalitlir um fólkið í norðri og höfðu lítinn skilning á menningu þess. Framsækin viðhorf Vilhjálms skáru sig úr með beiðni hans um að binda endi á þjóðarrembu og gagnrýni hans á innrás evrópskrar menningar. Í fyrirlestrum sínum notaði hann frásagnir af samfélagi Inúíta til speglunar vestrænu samfélagi áheyrenda sinna. Hví voru þeir ekki hamingjusamir, þrátt fyrir efnislega velmegun? Hann sagði frá fólki sem átti engar efnislegar eigur en voru þrátt fyrir það hamingjusamasta fólk sem hann þekkti. Hann stundaði etnógrafíska menningargagnrýni löngu áður en slíkt komst í tísku.

 

Ljósmyndir Vilhjálms staðfesta jákvætt og uppbyggilegt viðhorf hans til hins fjarlæga norðurs og íbúa þess. Þær bera vitni um úrræðagott og kraftmikið fólk sem á virðingu okkar skilda og hvers menning og tækni var löguð að hinu náttúrulega umhverfi með góðum árangri. Vilhjálmur hélt fast við þá meginreglu mannfræðinnar að aðeins með því að staðsetja sjálfan sig í aðstæðum annars fólks er mögulegt að skilja það. Þessi er líka andi sýningarinnar Heimskautslöndin unaðslegu. Þegar sýningargestir fylgja í fótspor Vilhjálms ferðast þeir yfir víðáttur norðursins í Norður-Ameríku og fá þannig innsýn inn í hug og reynsluheim mikilfenglegs könnuðar.

 

Sýningin Heimskautalöndin unaðslegu er sett upp af Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og Visionis ehf. Reykjavík í samvinnu við Dartmouth College, New Hampshire, Bandaríkjunum. Flestar koma myndirnar frá Stefansson safninu í bókasafni Dartmouth skóla. Sýningin var fyrst opnuð á Listasafni Akureyrar í nóvember árið 2000; síðar í Listasafni Reykjavíkur, Montshire Museum of Science í Norwich, Vermont (2002), Scandinavia House í New York (2004), og Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn (2007). Smærri útgáfur af sýningunni hafa verið settar upp í Gimli, Winnipeg, Minneapolis og Iqaluit í Nunavut. Sýningarnar hafa fengið stuðning frá Evelyn Stefansson Nef, Menningarborg Reykjavík 2000, Akureyrarbæ, Alcan Inc og Utanríkisráðuneyti Íslands. Fyrirhugaðir sýningarstaðir eru: Prince of Wales Northern Heritage Centre, Yellowknife, the Northwest Territories og fleiri staðir í Kanada sem bíða staðfestingar.  Jafnframt Scott Polar Research Institute við Háskólann í Cambridge, Englandi og Arktikum Museum í Rovaniemi, Finnlandi.